Móðuharðindin

Móðuharðindin eru mestu hörmungar í sögu íslensku þjóðarinnar.  Engir dóu beint af völdum hraunflóðsins, en 70% bústofnsins féll vegna loftmengunar af völdum öskumistursins, sem grúfði yfir landinu og olli gífurlegri hungursneyð víðast hvar. Talið er að um 20% íbúanna hafi þá dáið af þeim völdum.

En áhrif Skaftárelda bitnuðu ekki aðeins á Íslendingum, því að gosið orsakaði einnig loftmengun og uppskerubrest á stórum hluta norðurhvels jarðar.  Móðan barst fyrst til Færeyja, Noregs og Skotlands tveim dögum eftir að gosið byrjaði, en síðan yfir aðra hluta Evrópu fyrir júnílok.  Í júlí var móðan komin yfir Rússland og Asíu.  Meðalhitinn féll um 1,3 stig og stóð sú kólnun í þrjú ár með hörmulegum afleiðingum, svo að uppskerubrestur varð jafnvel á fjarlægum stöðum eins og í Japan og Alaska.