Hvatningin til að gera stutta kynningarmynd um hamfarir Skaftárelda var sýning fyrir fáum árum í íslenska sjónvarpinu á bandarískri fræðslumynd um hamfarir í Yellowstone Park. Þar hefðu orðið gífurlegar hamfarir á 6-7 hundruð þúsund ára fresti og nú væru liðin 640 þús. ár frá síðasta gosi. Þeir, sem hins vegar vildu fá meiri vitneskju um væntanlegar hamfarir í Yellowstone, gætu öðlast þær með því að skoða Lakagíga, einkum vegna hins einstaka Eldrits sr. Jóns Steingrímssonar.
Í “Eldsveitunum” eins og héraðið umhverfis Kirkjubæjarklaustur var nefnt eftir Skaftárelda var enginn aðili fyrir hendi til að aðstoða við slíka fræðslu. Til að reyna að bæta úr því var ráðist í að gera stutta tölvumynd, sem sýndi aðalatriðin í framvindu gossins og hörmungar Móðuharðinda fyrir íbúana. Fyrir þá, sem fara eftir ábendingunni um að skoða Laka, er myndin nú mikilvægur leiðarvísir við að lesa feril hamfaranna beint af náttúrunni og skynja hörmungar íbúanna í Móðuharðindunum.
Jafnframt er myndinni ætlað að stuðla að öflugra fræðslustarfi á Kirkjubæjarklaustri um þessar hamfarir náttúruaflanna. Gosið í Eyjafjallajökli sýndi, hvað nútímasamfélagið er viðkvæmt fyrir slíkum náttúruhamförum og þá um leið, hversu gífurlegar afleiðingar aðrir Skaftáreldar hefðu um allan heim í dag. Það hlýtur því að verða vaxandi áhugamál margra að öðlast meiri vitneskju um Skaftárelda með heimsóknum í héraðið, enda vitað að slíkar hamfarir hafa orðið á þessu svæði á nokkur hundruð ára fresti.
Hin áhrifamikla stuttmynd, Eldmessa, er góður undirbúningur að því.